Útgerðarfyrirtækið Samherji krefst þess að Ríkissjónvarpið biðji félagið afsökunar og leiðrétti það sem félagið kallar meiðandi fréttaflutning frá fimmtudeginum 13. febrúar síðastliðinn.

Eins og ítarlega hefur komið fram í fréttum síðustu mánuði hafa verið uppi alvarlegar ávirðingar á fyrirtækið og forsvarsmenn þess vegna meintra mútugreiðslna og skattaundanskota hjá útgerð félagsins í Namibíu.

Fréttin sem nú er vísað til á vef Samherja var rætt við erlendan viðmælanda um spillingu og þróunaraðstoð, en félagið segir að látið hafi líta út fyrir með myndefni undir ummælunum að umræðuefnið væri mál Samherja, þó aldrei væri minnst á félagið.

Segir félagið að koma hefði mátt í veg fyrir þetta ef Samherja hefði verið gefinn kostur á andsvörum áður en fréttin var flutt, „eins og vinnureglur fréttastofu Ríkisútvarpsins geri áskilnað um“.

Áskilur Samherji sér rétt til að höfða mál „vegna þessara ummæla og annarra“ eins og segir í tilkynningunni, en félagið segir allar fullyrðingar í fréttinni vera úr lausu lofti gripnar og eiga sér enga stoð í raunveruleikanum.

Jafnframt segir þar:

„Alvarlegast sé þó að í fréttinni hafi verið fullyrt að stjórnendur Samherja hafi gerst sekir um alvarlega refsiverða háttsemi með því að múta embættismönnum í Namibíu en þeir hafi hvorki verið sakfelldir né ákærðir fyrir slíka háttsemi. Þá sé enginn starfsmaður Samherja með réttarstöðu sakbornings vegna málsins.“

Nánar má lesa tilkynninguna á vef félagsins , en hér má sjá frekari fréttir um málefni Samherja í Namibíu:

Hér má sjá skoðanapistla um málefni Samherja í Namibíu: