Dagskrárstjóri RÚV hefur beðist afsökunar á Stundarskaupi Ríkisútvarpsins en hann segir að það hafi ekki verið í samræmi við ritstjórnarlínu sem RÚV hefur fylgt varðandi barna- og fjölskylduefni.

Viðskiptablaðið vakti athygli á málinu í byrjun árs en í Stundarskaupið skaut föstum skotum að forsætis- og fjármálaráðherra.

Stundarskaupið hófst með hinn sígildu Stjörnustríðsopnun og fjallaði um hvernig átök höfðu brotist út innan „velmegunarríkisins". Þar sagði að uppreisnarmenn hefðu hreiðrað um sig í mikilvægum grunnstoðum mannlífsins og heimtað það eitt að fá að lifa eðlilegu lífi fyrir sig og fjölskyldur sínar. Forsætisráð- herra var sýndur í gervi Jabba the Hutt og fjármálaráðherra í gervi hershöfðingja keisaraveldisins (the empire) og merktur Aðmíráll Icehot1, en þeir flugu saman um á flotaskipinu „einkavæðaranum". „Þessir læknar og hjúkrunarfólk, þau eru sívælandi! Aldrei ánægð með neitt!" segir Bjarni í þættinum, milli þess sem hann og Sigmundur Davíð hlæja illkvittnislega. „Það er svo gaman, það er svo gaman að rústa!“ Næsta atriði sjást þeir skjóta úr vopnum „einkavæðarans“ og tortíma Landspítalanum.

Karl Garðarson, þingmaður Framsóknarflokksins og Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins skrifuðu grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag þar sem þau hörmuðu það að Ríkisútvarpið stundaði pólítískan áróður sem beint var gegn börnum.

Ekki í samræmi við ritstjórnarlínu

Eins og áður sagði þá hefur dagskrárstjóri RÚV nú beðist afsökunnar á Facebook síðu RÚV. Afsökunarbeiðnina má lesahér í heild sinni:

„Að gefnu tilefni. Við fólum einhverjum færustu stjórnendum og framleiðendum barnaefnis á Íslandi að sjá um Stundina okkar fyrir nærri þremur árum. Þeir hafa staðið undir væntingum og trausti, fært barnefni upp á hærra plan á marga vegu og hlotið mikið lof fyrir. Stundin okkar hefur, undir þeirra stjórn, verið vandað og metnaðarfullt barnaefni sem hefur glatt og frætt æsku landsins. Í fyrra (2014) var boðið upp á skemmtilega nýjung með áramótagríni sem ætlað var fjölskyldunni allri og var það nefnt Stundarskaupið. Það sló í gegn og mæltist afar vel fyrir. Í Stundarskaupinu 2015 var atriði sem er ekki í samræmi við þá ritstjórnarlínu sem við höfum fylgt varðandi barna- og fjölskylduefni. Full ástæða er til að biðjast afsökunar á því. Ég og umsjónarmenn Stundarinnar okkar erum sammála um að barnaefni er ekki og á ekki að vera vettvangur pólitískrar ádeilu og það hefur ekki breyst.“