Samkvæmt ákvörðun Fjölmiðlanefndar braut Ríkisútvarpið gegn lögum 2. mgr. 7. gr. laga um um Ríkisútvarpið , með kostun á dagskrárliðum í þáttum sem töldust ekki íburðarmiklir dagskrárliðir. Þetta kemur fram í niðurstöðu Fjölmiðlanefndar sem má lesa hér.

Fjölmiðlanefnd barst kvörtun þessa efnis frá 365 miðlum, þar sem kom fram að 365 taldi að RÚV hafi brotið á fyrrgreindri málsgrein laga um Ríkisútvarpið vegna kostunar á ákveðnum dagskrárliðum, sem ekki teldust íburðarmiklir dagskrárliðir. Dagskrárliðirnir sem var kvartað yfir voru eftirfarandi; Árið er - Upprifjun á Eurovision, Popp og Rokksaga Íslands, Vikan með Gísla Marteini, Hraðfréttir og Íþróttalífið. Fór 365 jafnframt fram á að RÚV verði gert að greiða stjórnvaldssekt vegna málsins.

Fjölmiðlanefnd féll þó frá sektarákvörðun þar sem að brotið taldist óverulegt. Í niðurstöðu Fjölmiðlanefndar segir: „Með vísan til þess að Ríkisútvarpið hefur í ljósi sjónarmiða fjölmiðlanefndar fallist á að gera grundvallarbreytingar á skilmálum RÚV um auglýsingar, sem fela í sér töluverða tekjuskerðingu fyrir félagið, miðað við fyrri framkvæmd, hefur fjölmiðlanefnd ákveðið að falla frá sektarákvörðun í málinu.“