Ríkisútvarpið hefur gert samning við Exton sem metinn er á 80 milljónir króna. Samningurinn kveður á um að Exton útvegi RUV allar nýjar sjónvarpslinsur í fréttasendingar og þáttagerð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Exton en RÚV stefnir á að framleiða og senda út allt eigið efni í háskerpu og er samningurinn liður í þeirri þróun eins og segir í tilkynningunni.

Haldið var útboð af hálfu Ríkiskaupa fyrir hönd RÚV á evrópska efnahagssvæðinu en tilboð Exton var talið hagstæðast. Samningurinn er til þriggja ára og tekur til allra háskerpulinsa sem RUV þarf á að halda til fréttasendinga og þáttagerðar. Um er að ræða linsur frá framleiðandanum Fujinon og eru þær af nokkrum stærðum og gerðum.

Samkvæmt frétt RÚV um málið er stefnt á að allar útsendingar Ríkissjónvarpsins verði komnar í háskerpu eftir um tvö ár og verða útsendingar þá á tveimur rásum. Þetta ætti að leiða til þess að röskun á hefðbundinni dagskrá vegna viðburða í íþróttaheiminum ættu að heyra sögunni til. Þjónustuna á að byggja upp í áföngum og hætta á núverandi hliðrænni dreifingu á sjónvarpsmerki RÚV fyrir árslok 2014.