Á árabilinu 2007 til 2019 þurfti Ríkisútvarpið að greiða rétt rúmlega 11,8 milljónir króna í sektir og bótagreiðslur í samtals fjórtán málum að því er Morgunblaðið greinir frá upp úr svari mennta- og menningarmálaráðherra.

Þar var ráðherrann, Lilja Alfreðsdóttir, að svara fyrirspurn Bergþórs Ólasonar þingmanns Miðflokksins og er miðað við verðlag ársins 2019, að teknu tilliti til breytinga á vísitölu neysluverðs.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær upp úr svörum ráðuneytanna við fyrirspurn annars þingmanns Miðflokksins hafa þau og undirstofnanir þeirra borgað í það minnsta 250 milljónir króna í laun upplýsingafulltrúa. Í svari ráðherrans er tekið fram að ekki sé hægt að veita upplýsingar um lögfræðikostnað málanna, né heldur hversu mikill tími starfsmanna hafi farið í þau.

Af málunum fjórtán eru sex stjórnvaldssektir fjölmiðlanefndar, þrjár stjórnvaldssektir Fjármálaeftirlitsins, fjögur dómsmál og eitt sektarmál frá CBU, sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva. Þar af var hæsta greiðslan tæplega 2,7 milljónir króna en hún var framkvæmd árið 2016.