Ríkisútvarpið (RÚV) fékk 864 milljónir króna frá fyrirtækjum vegna kostunar dagskrárliða árin 2015 til 2019. Þetta kom fram í svari menningarmálaráðherra við fyrirspurn Kolbeins Óttarssonar Proppé, þingmanns vinstrigrænna.

RÚV fékk 210 milljónir króna vegna kostunar árið 2015, 193 milljónir árið 2016, 165 milljónir árið 2017, 175 milljónir árið 2018 og 121 milljón króna í fyrra. Að jafnaði eru það um 175 milljónir króna á ári.

Megnið er vegna íþróttaefnis, stórviðburða og leikins íslensks efnis. Ráðherra segir að kostunarreglur sem RÚV hefur sett sér samræmist fjölmiðlalögum og að fjölmiðlanefnd hafi ekki gert athugasemd við þær.