Alþjóðlega markaðsfyrirtækið Sportfive hefur hafnað tilboði frá RÚV í sýningarrétt frá landsleikjum Íslands í knattspyrnu, karla og kvenna, sem og samantektarþætti frá Íslands- og bikarmótunum í knattspyrnu – sömuleiðis bæði í karla- og kvennaflokkum. Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) hafði áður framselt allan sýningarrétt á allri íslenskri knattspyrnu til Sportfive.

Fram kemur í tilkynningu frá Sportfive að fyrirtækið hafi staðfest í skeyti til RÚV að það hafi selt einkarétt á allri umfjöllun um Íslands- og bikarmótin til 365.

RÚV gerði tilboð í allan pakkann. Enn á eftir að semja um sýningarrétt á landsleikjunum í knattspyrnu.

Samstarf KSÍ og Sportfive hefur staðið yfir um árabil en fyrst var samið um sýningarrétt árið 1994. Síðasti samningurinn um sýningarrétt var undirritaður í janúar árið 2008 og var það fimmti samningurinn á þessum nótum sem var innsiglaður. Samningurinn skilaði KSÍ á sínum tíma hálfum milljarði króna.