RÚV fetar nú nýja braut í innheimtuaðgerðum sínum og krefur fyrirtæki um auknar greiðslur á afnotagjöldum vegna útvarpstækja í atvinnubifreiðum. Í frétt á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins kemur fram sú skoðun að þessi nýja skattheimta RÚV virðist vera mjög tilviljanakennd auk þess sem óvissa ríkir um hvort lagastoð sé fyrir henni.

Samtök atvinnulífsins hafa mótmælt þessari nýju skattheimtu og verði henni haldið til streitu mun látið reyna á réttmæti hennar fyrir dómsstólum. Um verulegar fjárhæðir getur verið að ræða hjá fyrirtækjum sem eru með fjölda atvinnubifreiða í rekstri.

Heimild Ríkisútvarpsins til að innheimta afnotagjöld af viðtækjum er að finna í 12. gr. laga um Ríkisútvarpið nr. 122/2000. Í lagagreininni er þó ekki að finna nokkra tilvísun til greiðslu afnotagjalda vegna viðtækja í bifreiðum, hvorki einkabifreiðum né atvinnubifreiðum. Í reglugerð um Ríkisútvarpið nr. 357/1986 er hins vegar að finna ákvæði er segir að ?Viðtæki í einkabifreiðum teljist heimilisviðtæki notanda. Af viðtækjum í öðrum bifreiðum og vélknúnum tækjum skuli greiða fullt gjald.? Með hliðsjón af kröfu 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, um skýrleika skattheimilda, er það mat SA að ekki sé nægilegt að kveðið sé á um afnotagjöld af bifreiðum í reglugerð heldur þurfi að kveða skýrt á um skyldu til greiðslu slíkra gjalda í lögum.

Við ofangreint má einnig bæta að samkvæmt áðurnefndri 12. gr. laga um Ríkisútvarpið er heimilt að veita afslátt af útvarpsgjaldi vegna fjölda tækja á ?sama stað?. Hins vegar er ekki að finna sambærilega afsláttarheimild vegna fjölda bifreiða í eigu sama lögaðila. Með þessu fyrirkomulagi á innheimtu útvarpsgjalds er fyrirtækjum mismunað eftir því í hverskonar rekstri þau eru. Þannig fær t.a.m. hótel sem er með útvarpstæki í hverju hótelherbergi afslátt af útvarpsgjaldi, en fyrirtæki sem gerir út nokkurn fjölda bifreiða nýtur ekki samskonar afsláttar. Er ekki hægt að sjá á hverju þessi mismunun á innheimtu afnotagjalda er byggð eða hvernig hægt er að rökstyðja hana. Má leiða líkur að því að í þessari framkvæmd felist brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


"Með hliðsjón af öryggishlutverki Ríkisútvarpsins og þörf bílstjóra til að fá upplýsingar s.s. um færð og ástand vega, er þörf bílstjóra fyrir útvarpstæki í bifreiðum mun meiri en annarra, er innheimta þessi í raun óskiljanleg," segir í frétt SA.