Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra er að ljúka rannsókn á Baugsmálinu svokallaða og gefur að öllum líkindum út ákærur í því í dag. Rannsóknin hefur tekið hátt í þrjú ár og teygt anga sína víða. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV. Þar var rifjað upp að rannsóknin í Baugsmálinu hófst með húsleit í höfuðstöðum Baugs í lok ágúst árið 2002.

Hún hefur meðal annars beinst að því að hvort Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs og Tryggvi Jónsson, fyrrverandi forstjóri Baugs, hafi gerst sekir um stórfelldan fjárdrátt og fleiri brot gegn Baugi. Til rannsóknar hafa verið meint brot gegn almennum hegningarlögum, skattalögum, lögum um bókhald og ársreikninga og fleira. Jón Ásgeir hefur ávallt neitað sakargiftum og Tryggvi sömuleiðis, eftir því sem næst verður komist. Rannsóknin hefur verið afar umfangsmikil, langstærsta auðgunarbrotarannsókn sem íslensk yfirvöld hafa staðið að og hefur hún meðal annars teygt anga sína til Færeyja, Luxemborgar og Bandaríkjanna seigr í frétt RÚV.

Heimildir fréttastofu Útvarps herma að Ríkislögreglustjóri sé að ljúka rannsókn sinni á málinu. Ákærur verði gefnar út og það gerist líklega í dag. Hverjir verða ákærur og hver sakarefnin eru nákvæmlega veit fréttastofa ekki enda eðlilegt að birta sakborningum ákærurnar fyrst áður en greint er frá innihaldi þeirra. Í frétt RÚV kom fram að Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, ritaði í gær Haraldi Johannessen, ríkislögreglustjóra bréf þar sem hann gerir margvíslegar athugasemdir við lögreglurannsóknina. Í bréfinu rekur hann sakarefni á borð við að hann hafi þegið ólögmæt lán frá Baugi, meintan fjárdrátt og fleiri brot sem tengjast húsleit lögreglu í Luxemborg.

Þá segist Jón Ásgeir upp á síðkastið hafa verið sakaður um fjárdrátt í tengslum við Vöruveltuna hf. sem átti og rak 10-11 en Baugur eignaðist. Jón Ásgeir rekur hinar ýmsu sakargiftir lið fyrir lið og vísar þeim á bug , sumar séu öldungis fráleitar. Hann gagnrýnir drátt á rannsókn á lögreglu og segir að málið í heild hafi kostað Baug miljarða króna. Jón Ásgeir bendir líka á að stjórn, endurskoðendur og hluthafar Baugs, telji ekki að félagið hafi orðið fyrir tjóni vegna meintra brota sinna gegn félaginu. Jónatan Þórmundsson lagaprófessor hefur líka unnið ítarlega álitsgerð um rannsókn lögreglunnar að beiðni lögmanna Baugs en nánar verður fjallað um hana í fréttum síðar í dag segir í frétt RÚV.