Mikill halli var á rekstri Ríkisútvarpsins (RÚV) rekstrarárið 1. september 2007 til 31. ágúst 2008.

Tap tímabilsins var 739,5 milljónir króna en samkvæmt tilkynningu frá RÚV má rekja um 600 milljónir króna til þess að verðbólga mælist langt umfram áætlanir.

Tap undanfarinna tveggja ára veldur því að eigið fé er næstum upp urið og stendur nú í 31 milljónum króna.

Þá kemur fram í tilkynningunni að til þess að bregðast við þessum aðstæðum hefur þegar verið gripið til mikilla aðhaldsaðgerða sem ætlað er að lækka útgjöld um 700 milljónir króana á næstu 12 mánuðum.

Í aðalatriðum eru aðgerðirnar tvíþættar; annars vegar nást 550 milljónir króna með almennum niðurskurði í starfseminni. Af þessu leiðir uppsögn á 21 starfsmanni og álíka fækkun verktaka.

Hins vegar áætlar RÚV að 150 milljónir króna náist með almennri lækkun launa um 10%.