Fjölmiðlanefnd hefur lagt stjórnvaldssekt á Ríkisútvarpið, sem nemur einni milljón íslenskra króna, vegna kostunar á dagskrárliðnum Saga HM á RÚV og vegna ófullnægjandi birtingar gjaldskrár fyrir auglýsingar og kostanir í tengslum við heimsmeistaramót karla í knattspyrnu, HM 2018 á RÚV. Þetta kemur fram í ákvörðun fjölmiðlanefndar.

Í niðurstöðu fjölmiðlanefndar kemur fram að Ríkisútvarpinu hafi verið óheimilt að kosta þáttaröðina Saga HM, sem sýnd var á RÚV á fjögurra mánaða tímabili í aðdraganda HM 2018. Teljist þáttaröðin ekki falla undir lögbundnar undantekningar frá banni við kostun dagskrárefnis á RÚV og hafi Ríkisútvarpið því með kostun þáttanna brotið gegn 2. mgr. 7. gr. laga um Ríkisútvarpið.

Þá hafi birting gjaldskrár fyrir auglýsingar og kostanir í tengslum við HM 2018 á RÚV verið ófullnægjandi og farið í bága við 5. mgr. 7. gr. laga um Ríkisútvarpið. Fram kemur að Ríkisútvarpið hafi samþykkt að gæta betur að samræmdri birtingu framvegis, þar með talið á vef félagsins, og hafi þegar gert viðeigandi úrbætur varðandi birtingu gjaldskrár fyrir auglýsingar og kostanir á vefnum.