Hagnaður af rekstri RÚV rekstrarárið 1. september 2009 til 31. ágúst 2010 var 206 milljónir króna. Afkoma félagsins batnaði um 477 milljónir króna frá árinu á undan. Þessi hagnaður kemur til styrkingar á eigin fé RÚV sem er nú 721 milljón króna og eiginfjárhlutfallið er 13,1%.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá RÚV.

„Þegar rekstrarformi RÚV var breytt vorið 2007 lýstu forráðamenn félagsins því markmiði að ná jafnvægi í rekstri RÚV innan tveggja ára - eftir nær stöðugan taprekstur í áratugi. Það markmið náðist. Frá því í febrúar 2009 hefur rekstur RÚV verið réttu megin við strikið – þrátt fyrir ytri áföll og síendurtekinn niðurskurð stjórnvalda á tekjum RÚV af almannaþjónustu,“ segir í tilkynningu.