Fækka þarf starfsmönnum Ríkisútvarpsins (RÚV) um 60, þar af verða beinar uppsagnir 39 sem koma til framkvæmda nú þegar. Páll Magnússon útvarpsstjóri segir í tilkynningu að draga þarf árlegan rekstrarkostnað RÚV saman um 500 milljónir króna komi ekki til enn frekari skerðingar á tekjum RÚV við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins.

Í tilkynningunni segir hann að fjárlagafrumvarpið feli í sér tæplega 300 milljóna króna raunlækkun á tekjum RÚV samanborið við síðasta ár - en 400 milljóna króna skerðingu sé miðað við það sem gert er ráð fyrir í gildandi lögum og rekstraráætlanir félagsins byggjast á.

Þar að auki hafi  þurft að lækka áætlaðar auglýsingatekjur um meira en 100 milljónir króna milli ára vegna samdráttar á markaði.

Í fjárlagafrumvarpinu kemur einnig fram að þegar útvarpsgjaldið á að renna óskert til RÚV frá og með árinu 2016 verði búið að lækka það um 500 milljónir króna.

„Það er óhjákvæmilegt að niðurskurður af þessari stærðargráðu hefur mikil áhrif á dagskrá Ríkisútvarpsins. Hann mun bæði sjást og heyrast. Nokkrir dagskrárliðir í útvarpi og sjónvarpi munu hverfa, öðrum fækkar og enn aðrir breytast og þynnast. Fréttatímar munu styttast og þeim mun fækka“, segir Páll Magnússon.