Gengið hefur verið frá því að heimsmeistaramótin í knattspyrnu bæði 2018 og 2022 verði sýnd á Ríkissjónvarpinu (RÚV).

Á vef RÚV kemur fram að Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, hefur gengið frá samningi við EBU, Evrópusamband ríkisstöðva, um útsendingarréttinn á báðum mótunum, það er HM 2018 sem verður haldið í Rússlandi og HM 2022 sem verður í Katar. Þá kemur fram að helsta ástæða þess sé fyrst og fremst krafan um að mótin verði sýnd í opinni dagskrá sem stendur öllum almenningi til boða.

RÚV á þegar sýningarréttinn á HM 2014, þannig að þrjú næstu heimsmeistaramót verða sýnd á RÚV. Að auki verður Evrópumótið sem fram fer í Póllandi og Úkraínu í sumar sýnt á RÚV.