Í skýrslu nefndar um starfsemi og rekstur RÚV er farið yfir forsendur í rekstraráætlun RÚV, en gangi þær ekki upp segir í skýrslunni að á 5 ára áætlunartíma muni reksturinn kalla á 5,8 milljarða króna hækkun á opinberu framlagi til RÚV. Meðal forsendnanna er að skilyrt aukafjárveiting árið 2015 upp á 182 milljónir króna skili sér til RÚV, að 1.500 milljóna króna söluandvirði á byggingarrétt á lóð RÚV muni renna óskipt til RÚV og verði nýtt til lækkunar skulda, en fyrir því þarf heimild í fjáraukalögum.

Þá er gert ráð fyrir því að útvarpsgjald verði 17.800 krónur og renni óskipt til RÚV frá árinu 2016, en ekki 16.400 krónur eins og fjárlög gera nú ráð fyrir. Þessi eini liður nemur samtals 2.455 milljónum króna á fimm árum. Eins er gert ráð fyrir því að Ríkissjóður létti skuldabréfi í eigu LSR af RÚV, en það nemur 3.200 milljónum króna.

Sé gengið út frá því að orðið verði við kröfum RÚV er gert ráð fyrir því að reksturinn næstu fimm ár verði í jafnvægi, en gangi forsendurnar ekki upp muni taprekstur RÚV stigmagnast og muni verða rúmur milljarður króna á rekstrarárinu 2019-2020.