Stjórn Ryanair hefur samþykkt að fyrirtækið skuli byrja að bjóða upp á áætlunarferðir milli Evópu og Bandaríkjanna innan fimm ára. Þau áform eru hluti af metnaðarfullri vaxtaráætlun samkvæmt frétt Financial Times . Áætlað er að ódýrustu flugmiðarnir muni kosta 10 pund.

Markaðnum með flugferðir yfir Atlantshafið hefur hingað til að mestu leyti verið skipt milli rótgróinna flugfélaga á borð við British Airways og American Airlines, en Icelandair hefur um 1% hlutdeild á þessum markaði eins og Viðskiptablaðið greindi frá á dögunum . Lággjaldaflugfélögum hefur hingað til ekki gengið vel í rekstri á flugleiðum yfir Atlantshafið. Árið 2013 byrjaði Norwegian að bjóða upp á flug milli Evrópu og nokkurra bandarískra borga en á síðasta ári tapaði félagið um 1,1 milljarði dollara, að hluta til vegna kostnaðar við útvíkkun leiðakerfisins.

Ljóst er að eftir miklu er að slægjast fyrir Ryanair, þar sem flugleiðir yfir Atlantshafið eru á meðal þeirra arðbærustu í heimi. Það sem helst er talið standa í vegi fyrir áformum félagsins er löng bið eftir nýjum, hagkvæmum farþegaþotum. Vegna fjölda óafgreiddra pantana þyrfti Ryanair að bíða í nokkur ár eftir að fá afhentar Dreamliner þotur frá Boeing, en þær eru taldar henta vel til reksturs á löngum flugleiðum. Að sama skapi er löng bið eftir A350 þotu Airbus sem keppir við Dreamliner þotu Boeing.