Lággjaldaflugfélagið Ryanair undirbýr sig fyrir verðstríð í flugfargjöldum nú þegar hyllir í að ferðabönnum vegna útbreiðslu kórónuveirunnar sem veldur Covid 19 sjúkdómnum fari að ljúka.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á dögunum hyggjast íslensk stjórnvöld hlíta tilmælum ESB um ferðabann til 15. maí næstkomandi, samhliða því að aflétta samkomu- og þjónustuhöftum í skrefum frá 4. maí.

Í byrjun vikunnar taldist fjöldi smitaðra í heiminum hafa náð 2 milljóna markinu sem þýðir tvöföldun á 12 dögum en veiran hefur farið eins og eldur um sinu heimsins síðan hún uppgötvaðist fyrst í Wuhan borg í Kína um áramótin, og haft mikil áhrif á flugstarfsemi víða um heim.

Michael O´Leary forstjóri Ryanair býst við að vinna komandi verðstríð flugfélaga þegar flugsamgöngur geta farið að komast á eðlilegt skrið á ný og ferðamenn fari á stjá á ný. Segir Írinn skeleggi að áður en langt um líður verði flugumferð komin í eðlilegt horf en á lægri verðum, sem Ryanair sé betur undirbúið undir en önnur flugfélög með ódýrari rekstrarkostnaði.

„Á sömu mínútu og við stefnum á því að byrja að fljúga á ný förum við að selja sætin á afslætti, og svo mun sérhvert annað flugfélag,“ hefur Reuters eftir O'Leary.

„Hvort sem verðið verður 9,99 evrur, 4,99 evrur, 1,99 evrur eða 99 sent, þá er okkur nánast sama - aðalatriðið fyrir okkur til skamms tíma verður ekki að græða peninga, heldur að koma flugstjórum okkar og flugáhöfnum aftur af stað og flugvélunum aftur á loft.“

Þvert á spár um að það muni taka tíma fyrir ferðamenn að koma sér aftur af stað spáir O´Leary hraðri endurkomu en aðalvandi flugvélaga verði „gríðarleg verðfall“ á flugmiðum sem hefðbundin flugfélög sem nú sæki sér ríkisaðstoð í stórum stíl eigi eftir að verða í vandræðum með að mæta.

Bjartsýnar spár O´Leary eru þvert á spár annarra forstjóra flugfélaga, eins og hjá Lufthansa og greinenda sem búast við því að flugumferð nái ekki sömu umsvifum og á síðasta ári fyrr en á árunum 2023 til 2024.

Flugvélaframleiðendur og alþjóðasamtök flugfélaga, IATA, hafa einnig varað við hægum bata frá áhrifum útbreiðslu veirunnar eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um, en félög eins og Wizz air búast við að þurfa að tryggja fjarlægð áfram milli farþega með hálffullum vélum áfram.

Gagnrýninn á ríkisaðstoð við óhagkvæmari félög

O'Leary gagnrýndi einnig margmilljarða ríkisstuðning sem flugfélög eins og Lufthansa og Air France-KLM hafi leitast eftir, og sagði hann að Ryanair leitaðist við að hnekkja samþykki ESB á skattaafslátti franskra stjórnvalda sem undanskilji flugfélög í öðrum ríkjum sambandsins.

Ryanair býst ekki við að flug hefjist að nýju fyrr en að takmörkuðu leiti í júní að mati írans skelegga, en eftir það muni endurkoma þeirra vera knúin áfram með miklum afsláttum af sölu ferða í frí í júlí og ágúst sem fólk muni grípa á síðustu stundu.

„Fullt af fólki í norðanverðri Evrópu hafa verið lokuð inni í íbúðum sínum,“ segir O'Leary. „Þau munu vilja komast í frí áður en krakkarnir fara aftur í skólann, svo lengi sem þau geta gert það með ásættanlegu öryggi.“

Hann býst þó við að áfram verði félagið tekjulægra á næsta ári, en á móti komi að olíuverð verði lægra sem og að flugvellir muni lækka gjöld. En hann sé samt bjartsýnn á að sumarið 2021 verði stórt í ferðamennsku þegar fólk bæti upp fyrir glötuð tækifæri í sumar.