Írska flugfélagið Ryanair skilaði 1,26 milljarða evra hagnaði eftir skatta, eða sem nemur 183 milljörðum króna, á fyrri helmingi fjárhagsársins, þ.e. frá 1. apríl til 30. september. Til samanburðar tapaði félagið 47,6 milljónum evra á sama tímabili í fyrra.

Tekjur flugfélagsins nærri þrefölduðust á milli ára og námu 6,6 milljörðum evra á þessu sex mánaða tímabili. Tekjur félagsins voru jafnframt 23% hærri en á sama tímabili árið 2019.

Ryanair færði upp farþegaspá sína fyrir fjárhagsárið, sem lýkur 31. mars næstkomandi, úr 166,5 milljónum í 168 milljónir.

Michael O‘Leary, forstjóri Ryanair, sagði að það væri enn hætta á „slæmum fréttum“ vegna stríðsins í Úkraínu eða nýju afbrigði Covid-veirunnar, sem gæti haft áhrif á bókunarstöðuna út árið.

„Við erum að sjá mjög sterkar bókunarstöðu fram í tímann, sem er óvanalegt að gefnum óróleikanum. Það eru engin merki um áhyggjur af niðursveiflu í hagkerfinu í bókunum fram í tímann hjá okkur,“ hefur Financial Times eftir O‘Leary.