Stjórn lággjaldaflugfélagsins Ryanair hefur ákveðið að samþykkja tilboð International Airlines Group (IAG) í 29,8% hlut fyrirtækisins í Aer Lingus.

Tilboðið hljóðar upp á 940 milljónir punda og mun salan ganga í gegn ef samkeppnisyfirvöld leyfa. Markmið IAG er að gera Dublin, höfuðborg Írlands, að stórum millilandaflugvelli.

Hlutabréf í öllum þremur flugfélögunum höfðu hækkað um 2 prósent þegar markaður opnaði í dag. Michael O‘Leary, forstjóri Ryanair, sagði að tilboðið væri ásættanlegt og að það væri í hag hluthafa að samþykkja þetta.

„Söluverðið þýðir að Ryanair mun hagnast lítillega á fjárfestingu sinni í Aer Lingus undanfarin níu ár,“ sagði hann jafnframt.

Ryanair hefur þrisvar reynt að eignast allan hlut í Aer Lingus. Fyrsta yfirtökutilraunin var árið 2006, rétt eftir að írsk stjórnvöld settu Aer Lingus á hlutabréfamarkað.

Írsk stjórnvöld seldu 25% hlut sinn í Aer Lingus til IAG í maí og hvöttu Ryanair til að gera slíkt hið sama. Aer Lingus er fjórða umfangsmesta flugfélagið á Heathrow, á eftir British Airways, Lufthansa og Virgin Atlantic.