Stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu, Ryanair hefur nú gert yfirtökutilboð í einn af samkeppnisaðilum sínum, írska flugfélagið Aer Lingus.

Samkvæmt fréttavef Reuters hljómar tilboð Ryanair upp á um 750 milljónir evra, sem þó er tæplega helmingi minna en þegar félagið bauð í Aer Lingus árið 2006 áður en Evrópusambandið stoppaði þá yfirtöku.

Ryanair á nú þegar 29,82% hlut í Aer Lingus. Í tilkynningu frá félaginu til samkeppnisyfirvalda kemur fram að greitt verði fyrir yfirtökuna, ef af verður, með reiðufé. Gert er ráð fyrir því að greiða 1,4 evru fyrir hvern hlut sem þýðir að tilboð Ryanair er 28% yfir lokagengi Aer Lingus á mörkuðum s.l. föstudag.

Talsmaður Aer Lingus vildi ekki tjá sig um máið við Reuters fréttastofuna en stjórnendur Aer Lingus eru að sögn Reuters harðlega á mót yfirtökunni.