Ryanair, stærsta lágfargjaldaflugfélagið í Evrópu, hagnaðist umfram væntingar á fjórða fjórðungi síðasta rekstrarárs, sem lauk 31. mars. Hagnaður félagsins á fjórðungnum nam 32,1 m.evra samanborið við tap upp á 3,3 m.evra fyrir sama tímabil í fyrra. Markaðsaðilar bjuggust að meðaltali við 11 m.evra hagnaði. Hagnaður á hlut nam 4,6 cent en í fyrra var tap upp á 0,4 cent á hlut. Meiri hagnað má rekja til fjölgunar farþega og hækkunar fargjalda, auk þess sem félagið vann markaðshlutdeild af British Airways. Rekstrartekjur félagsins jukust um 44% á fjórðungnum og námu 321,1 m.evra en markaðsaðilar áttu von á 268,5 m.evra að meðaltali að því er segir í Vegvísi Landsbankans.

Hagnaður ársins nam 268,9, m.evra samanborið við 226,6 m.evra árið á undan og jókst því um 19%. Þetta er betri niðurstaða en flestir markaðsaðilar áttu von á. Rekstrartekjur jukust um 24%, úr 1,07 ma.evra í 1,34 ma.evra. Rekstrargjöld námu 1 ma.evra og vóg eldsneytiskostnaður þungt (26%) í gjöldum félagsins á árinu. Eldsneytiskostnaðurinn jókst um 52% og nam 265,3 m.evra á árinu.

Samkvæmt Michael O'Leary framkvæmdastjóra Ryanair er félagið óvarið fyrir eldsneytisverði það sem eftir lifir sumars og hefur því notið góðs af þeim lækkunum sem orðið hafa. Jafnframt kom fram í máli hans að félagið hefur varið 75% af eldsneytisþörf sinni fyrir komandi vetur með framvirkum samningum á genginu USD 47 á tunnu segir í Vegvísi Landsbankans.

Farþegum Ryanair fjölgaði á síðasta rekstrarári um 19% og námu 27,6 milljón farþegum, sætaframboð jókst um 16% og meðalfargjöld hækkuðu um 2%.

Byggt á Vegvísi Landsbankans.