Írska lággjaldaflugfélagið Ryanair hefur hótað því að fara í mál við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB), að því er fram kemur í frétt Financial Times. Ryanair segir ástæðuna vera að meira en ár sé liðið frá því að félagið lagði fram kvörtun til framkvæmdastjórnarinnar þar sem óskað var eftir því að hún myndi grípa til aðgerða gegn ýmsum ríkjum sem Ryanair telur að veiti flugfélögunum Air France-KLM, Lufthansa, Alitalia og Olympic Airways ólöglega ríkisstyrki. Forsvarsmenn Ryanair segja að framkvæmdastjórnin hafi ekki enn séð ástæðu til að grípa til aðgerða og nú sé þolinmæði fyrirtækisins á þrotum.

Upphæðirnar sem stjórnvöld hafa borgað umræddum flugfélögum til að niðurgreiða rekstur sinn skipta hundruðum milljónum evra, að mati Ryanair. Írska flugfélagið heldur því meðal annars fram að frönsk stjórnvöld veiti afslátt af gjaldtöku í innanlandsflugi þar í landi sem Air France hagnist einkum á. Auk þess hefur Ryanair bent á að flugvellinum í München sé heimilað að vera rekinn með tapi á meðan verið sé að byggja nýja flugstöð, en slíkt þjónar hagsmunum Lufthansa.

Þetta er hins vegar ekki eini ágreiningur Ryanair og Evrópusambandsins um þessar mundir. Í lok síðasta mánaðar kom framkvæmdastjórn ESB í veg fyrir yfirtöku flugfélagsins á Aer Lingus upp á 1,48 milljarða evra og sagði að slík sameining myndi leiða til einokunar á markaði. Sameinað félag myndi ráða um 80% af öllu flugi til og frá flugvellinum í Dublin og Evrópu. Micheal O´Leary, framkvæmdastjóri Ryanair, sagði í kjölfar úrskurðarins að samkeppnisyfirvöld ESB hefðu beinlínis rangt fyrir sér í þessu máli og benti á því til vitnis að þau hafi samþykkt samruna Air France og hollenska flugfélagsins KLM. Ryanair hefur heitið því að það muni áfrýja úrskurðinum.