Lággjaldaflugfélagið Ryanair hefur tilkynnt að það hyggst hætta flugi til og frá Búdapest í Ungverjalandi. Flogið var á 10 áfangastaði frá borginni en talið er að ákvörðun Ryanair geri það að verkum að 800 störf tapist. Þetta kemur fram í frétt The Guardian um málið.

Samkvæmt tilkynningu frá félaginu er ástæðan sögð vera ákvörðun stjórnenda Hochtief flugvallarins í Búdapest um að hækka gjöld á félagið. Michael O'Leary, forstjóri Ryanair segir stjórnendur hunsa hið alþjoðlega samkeppnisumhverfi sem ríkir á milli flugvalla í Evrópu. Flugfélagið hyggst frekar byggja upp starfsemi sína annars staðar í Evrópu.

Ekki er þó útilokað að hætt verði við þessar áætlanir þar sem O'Leary tók fram að ef betri samningar myndu nást þá myndi félagið mögulega snúa við ákvörðun sinni. Það er ekki í fyrsta skipti sem O'Leary notfærir sér fjölmiðla til að þrýsta á stjórnendur flugvalla um að lækka gjöld sín en hann hefur ítrekað talað gegn hækkun gjalda á Stansted flugvelli.