Ryanair mun hætta við bæði flugleiðir og jafnvel loka flughöfnum vegna flugvélaskorts ef heldur áfram sem horfir að nýjar Boeing 737 Max vélarnar sem félagið hefur pantað komist ekki í notkun fyrr en í fyrsta lagi í desember.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær er jafnvel talið að Max vélarnar komist ekki í notkun fyrr en í ársbyrjun 2020, en einnig eru uppi vangaveltur um hvort þær verði markaðssettar undir nýju vörumerki þegar af því verður.

Ryanair bíður nú eftir að fá 58 vélar af þessari gerð, sem kyrrsettar hafa verið frá því í apríl í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa sem rekin eru til inngripa sjálfstýringar vélanna sem bregðast eiga við ofrisi þeirra, en vélarnar áttu að berast félaginu fyrir næsta sumar.

Nú býst félagið við því að fá einungis um helming þessara véla, en félagið hafði pantað 135 vélar af þessari gerð og átti að fá fyrstu 5 þeirra í haust. Því gæti verið að félagið grípi til þess ráðs að loka flughöfnum, og hefur félagið þegar hafið viðræður við flugvelli um hvar niðurskurður verði framkvæmdur að því er BBC greinir frá.

Michael O´Leary forstjóri Ryanair segir viðræðurnar snúast um það hverjar af flughöfnum félagsins þar sem hefur verið taprekstur eða rekstur undir væntingum muni sjá fram á niðurskurð eða lokanir frá nóvember næstkomandi. Félagið væntir þess nú að flytja um 157 milljón farþega á tólf mánuðum fram til mars 2021, sem er 5 milljónum færri en félagið hafði áður áætlanir um.

Ryanair starfar frá 84 flughöfnum í 35 löndum í Evrópu og Norður Afríku, en sumar þeirra eru einungis flughafnir fyrir staka flugvél. Auk þess er félagið með fjölda flugvalla sem það flýgur til án þess að vera flughöfn fyrir flugvélar félagsins.