Stærsta lágfargjaldaflugfélag Evrópu, Ryanair, birti í gær uppgjör sitt fyrir síðasta fjórðung ársins 2004. Uppgjörið kom greiningaraðilum á óvart en það var mun betra en gert hafði verið ráð fyrir. Hagnaður félagsins nam 34,5 milljónum evra en miðgildi í spám greiningaraðila var 23,5 milljónir. Þessi hagnaður er þó 16% lægri en á sama tímabili árið 2003 en þá var hagnaðurinn tæplega 41 milljón evra. Stjórnendur félagsins segja að lægri hagnaður nú skýrist m.a. af háu eldsneytisverði og mikilli samkeppni á flugmarkaði segir í Hálffimm fréttum KB banka.

Þar er bent á að velta félagsins jókst um 15% og nam 294 milljónum evra á fjórðungnum samanborið við 255 milljónir fyrir sama tímabil árið 2003. Aukning farþega var um 13% og flugu 6,9 milljónir með Ryanair á tímabilinu. Auk þessa kom á óvart að meðalfargjöld félagsins stóðu nánast í stað frá fjórðungnum á undan en félagið hafði gert ráð fyrir því að meðalfargjöld myndu lækka um 5 ? 10%.

"Á fyrsta ársfjórðungi 2005 gera stjórnendur Ryanair ráð fyrir því að meðalfargjöld muni hækka um 5% og að félagið muni skila um 10 milljónum evra í hagnað, en áður hafði verið gert ráð fyrir tapi á fjórðungnum. Í kjölfar uppgjörsins, og bjartara útlits á yfirstandandi ársfjórðungi, hafa stjórnendur Ryanair hækkað afkomuspá sína fyrir fjárhagsár félagsins sem endar í lok mars. Nú er gert ráð fyrir því að hagnaður félagsins muni verða nálægt 246 milljónum evra en fyrri áætlun hljóðaði uppá um 200 milljónir," segir í Hálffimm fréttum KB banka.

Þann 20. október síðastliðinn hafði gengi bréfa Ryanair lækkað um tæp 45% frá upphafi árs 2004 en þau tóku við sér í kringum hálfsársuppgjörs félagsins 2. nóvember og voru í gær rúmum 11% lægri en 1. janúar í fyrra. Eftir birtingu uppgjörsins nú hafa bréfin aftur hækkað verulega, eða um 7,6% þegar þetta er skrifað, og er gengi þeirra nú 6,31 evra á hlut í kauphöllinni í London. Frá 20. október hefur gengi bréfa Ryanair hækkað um rúm 73% og um tæplega 30% síðustu 12 mánuði.

Byggt á Hálffimm fréttum KB banka.