*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Erlent 3. nóvember 2021 11:01

Ryanair og Lufthansa aftur í plús

Flugfélögin skiluðu bæði rekstrarhagnaði á þriðja ársfjórðungi, í fyrsta sinn frá því að faraldurinn hófst.

Ritstjórn
epa

Evrópsku flugfélögin Ryanair og Lufthansa skiluðu bæði rekstrarhagnaði á þriðja ársfjórðungi, en um er að ræða fyrsta sinn frá því að faraldurinn hófst sem afkoma félaganna er jákvæð. Þau fylgja þar með í fótspor Icelandair sem skilaði hagnaði á þriðja fjórðungi, í fyrsta sinn í nærri tvö ár.

Rekstrarhagnaður (EBIT) Lufthansa nam 17 milljónum evra á fjórðungnum samanvorið við 1,3 milljarða evra EBIT-tap árið áður. Afkoma félagsins var umfram spár greiningaraðila sem höfðu spáð 33 milljóna evra EBIT tapi á síðasta fjórðungi. Farþegafjöldi félagsins á fjórðungnum var um 58% af því sem hann var á sama tíma árið 2019.

Írska flugfélagið Ryanair hagnaðist um 225 milljónir evra eftir skatta, eða um 34 milljarða króna, á fjórðungnum en á sama tíma í fyrra tapaði félagið 225 milljónum evra. Ryanair flutti alls 39,1 milljón farþega frá apríl til september en á sama tíma í fyrra var farþegafjöldi félagsins 17,1 milljón. Að sama skapi jukust tekjur um 83% á þessu sex mánaða tímabili og námu 2,2 milljörðum evra. Ryanair gerir ráð fyrir 100-200 milljóna evra tapi á fjárhagsárinu sem lýkur í mars 2022.

Ryanair að yfirgefa London Kauphöllina

Michael O‘Leary, forstjóri Ryanair, sagði í kjölfar uppgjörsins að flugfélagið sé nú með afskráningu úr London Kauphöllinni til skoðunar en hlutabréf félagsins eru tvískráð í London og Dublin. Hann segir að ástæðan fyrir mögulegri afskráningu úr London Kauphöllinni, þar sem bréf félagsins hafa verið skráð í tuttugu ár, séu strangar reglur ESB sem kveða á um að flugfélög innan ríkja sambandsins séu í meirihlutaeigu þegna ríkjanna (eða EES-ríkja).

„Ég held að þetta sé óumflýjanlegt í kjölfar Brexit,“ er haft eftir O‘Leary, í frétt Financial Times. „Að mínu mati munum við líklega afskrá félagið á næstu sex mánuðum.“

Ryanair hefur bannað aðilum utan Evrópusambandsins að kaupa hlutabréf í félaginu og útvíkkaði reglurnar í byrjun árs þannig að þær næðu einnig yfir breska einstaklinga og fyrirtæki. O‘Leary sagði að fyrir Brexit hafi Bretar átt um 20% af hlutafé Ryanair en markmiðið sé nú að félagið verði alfarið í eigu þegna ESB ríkja.

Stikkorð: Michael O'Leary Ryanair Lufthansa