*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Erlent 29. október 2014 14:44

Ryanair opnar í Kaupmannahöfn

Írska flugfélagið Ryanair mun hefja flug í vor frá Kastrup til minni flugvalla í nágrenni við London, Mílanó og Varsjá.

Ritstjórn

Forsvarsmenn írska flugfélagsins Ryanair tilkynntu á blaðamannafundi í morgun að félagið myndi í vor hefja flug beint frá Kastrup í Kaupmannahöfn til minni flugvalla í nágrenni við London, Mílanó og Varsjá. Túristi greinir frá þessu.

Á sama tíma mun Ryanair hætta starfsemi sinni hinum megin við sundið á Sturup flugvelli í Malmö. Flugfélagið hyggst opna starfsstöð í Kaupmannahöfn og hafa þar flugvélar og áhafnir. Fjórar þotur félagsins verða staðsettar þar þegar líður á næsta ár. 

Mögulegt er að Ryanair hefji beint flug frá Kaupmannahöfn hingað til lands. Forsvarsmenn félagsins hafa áður kannað möguleika á beinu flugi til Íslands og skoðuðu þá Keflavíkurflugvöll og Akureyrarflugvöll í því samhengi. Komust þeir hins vegar að þeirri niðurstöðu að aðflug að Akureyrarflugvelli væri of erfitt auk þess sem kostnaður í Keflavík þótti of hár.

Stikkorð: Ryanair