Lággjaldaflugfélagið Ryanair hefur pantað 75 Boeing 737 Max þotur til viðbótar, en vænta má að þoturnar snúi brátt aftur í háloftin eftir að hafa verið kyrrsettar í að verða tvö ár vegna tveggja mannskæðra flugslysa. Þessi trú lággjaldafélagsins á Max þotunum þykja jákvæðar fréttir fyrir Boeing og vonast flugvélaframleiðandinn til þess að fleiri stórar pantanir fylgi í kjölfarið. BBC greinir frá.

Flugfélagið hafði þegar samþykkt að kaupa 135 Max þotur en heildarvirði pöntunar Ryanair eftir þessa viðbót ku nema um 22 milljörðum dala. Ryanair stefnir á að fá þoturnar afhendar í byrjun næsta árs.

Bandarísk flugmálayfirvöld gáfu nýlega grænt ljós á endurkomu flugvélanna í háloftin en evrópsk flugmálayfirvöld hafa ekki enn veitt samþykki, en fréttir herma að það styttist þó í það.