Flugfélagið Ryanair hefur rekið flugstjóra og undirbýr nú málshöfðun gegn honum vegna ummæla sem hann viðhafði um öryggismál flugfélagsins í heimildarmynd á Channel 4. Í þættinum lýsti flugstjórinn, John Goss, yfir áhyggjum af því að flugstjórar hjá félaginu veigruðu sér við því að gera athugasemdir um öryggi vélanna.

Ryanair mun einnig lögsækja Channel 4 fyrir þáttinn. Í yfirlýsingu sem flugfélagið birti í gær segir að félagið líði það ekki að starfsmenn dragi í efa öryggi um borð í vélum þess. Sérstaklega ekki þegar umræddir starfsmenn hafi nýlega skrifað undir yfirlýsingu þess efnis að þeir hafi engar áhyggjur af örygginu. Flugfélagið fullyrðir að Goss hafi skrifað undir slíka yfirlýsingu þann 10. júlí og svo aftur þann 13. ágúst.

Goss og Ryanair hafa átt í málaferlum áður vegna kjaramála flugmanna, segir Daily Telegraph.