Írska lággjaldaflugfélagið Ryanair tapaði 101,5 milljónum evra á fjórða ársfjórðungi síðasta árs samanborið við hagnað upp á 35 milljónir evra á sama tíma árið áður.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að tapið megi rekja til hækkandi eldsneytisverðs en greiningaraðilar á vegum Reuters hafa þegar gagnrýnt þá útskýringu félagsins í ljósi þess að olíuverð hefur farið lækkandi með haustinu.

Ryanair segir þó að eldsneytiskostnaður hefði aukist á ársfjórðungnum um 71% og numið um 47% af heildarrekstrarkostnaði félagsins.

Þó kemur fram í tilkynningu Ryanair að vegna lækkandi olíuverðs á síðari hluta ársins geti hagnaður félagsins yfir árið verið rúmar 50 milljónir evra en um mitt ár sagði Ryanair í afkomuspá sinni að búist væri við því að félagið yrði rekið á núlli yfir árið.

Michael O'Leary, forstjóri Ryanair sagði í samtali við BBC í morgun að lággjaldaflugfélög myndu að öllum líkindum koma vel undan fjármálakrísunni. Þannig leiti einstaklingar í ódýrari ferðaleiðir en hann taldi ólíklegt að fólk hætti að ferðast alveg vegna krísunnar.