Ryanair, stærsta lágfargjaldaflugfélagið í Evrópu, tilkynnti í dag um samning við flugvélaframleiðandann Boeing um kaup á 70 flugvélum og rétt til þess að kaupa aðrar 70 til viðbótar en flugvélarnar koma til afhendingar á árunum 2008-2012. Gera má ráð fyrir að virði samningsins sé um 4 ma.USD (250 ma.kr.) miðað við listaverð flugvélanna. Forsvarsmenn félagsins vildu þó ekki gefa upp nákvæmt virði samningsins en sögðu verð vélanna þó vera hagstæðara en í síðasta samningi félagsins við Boeing.

Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans í dag. Þar kemur einnig fram að með samningnum við Ryanair er ætlunin að tryggja stöðu félagsins til framtíðar enda er búist við töluverðum vexti á lágfargjaldamarkaðnum á næstu árum. "Lágfargjaldaflugfélögin eru nú með um 24% af heildarflugumferð í Evrópu en búist er við því að geirinn sæki í sig veðrið og að hlutfallið verði komið í um 40% á árinu 2010. Ryanair mun því hafa alla burði til þess að geta tekist á við aukna eftirspurn enda stefnir félagið að því að flytja yfir 70 milljón farþega á ári og að því markmiði verði náð fyrir 2012. Gangi þetta eftir verður Ryanair stærsta flugfélag Evrópu.

Gengi Ryanair hækkaði um 1,6% í dag og endaði gengi félagsins í 6,24 á markaði í London," segir í Vegvísi.