*

mánudagur, 22. júlí 2019
Erlent 24. júlí 2017 16:17

Ryanair varar fjárfesta við verðstríði

Hlutabréfaverð Ryanair lækkaði um 3,5% í dag þrátt fyrir að hagnaður fyrir skatta hafi aukist um 55%.

Ritstjórn
epa

Írska lágfargjaldaflugfélagið segist ætla að lækka verð á flugfargjöldum um allt að 9% á ákveðnum flugleiðum félagsins þar sem fyrirtækið sér fram á harðari samkeppni á næstu mánuðum. BBC greinir frá.

Ummælin komu í kjölfarið á því að félagið birti milliuppgjör fyrir annan ársfjórðung þessa árs. Hagnaður félagsins fyrir skatta jókst um 55% og nam 397 milljónum evra. Tekjur námu 1,68 milljörðum evra og jukust um 13% milli ára. 

Þrátt fyrir góða afkomu urðu ummælin um yfirvofandi verðstríð á flugmarkaði til þess að hlutabréf félagsins lækkuðu um 3,5%. Ryanair var ekki eina flugfélagið á Bretlandseyjum sem lækkaði í verði því gengi bréfa easyJet lækkaði um 3,4% og bréf móðurfélags British Airways, IAG lækkuðu um 2,7%.

Þetta voru ekki einu tíðindin sem bárust frá höfuðstöðvum Ryanair í dag því félagið greindi einnig frá því að það hefði gert óskuldbindandi tilboð í ítalska flugfélagið Alitalia. Í maí síðastliðnum óskaði Alitalia eftir ríkisaðstoð í annað skipti frá árinu 2008.