Ryanair hefur sýnt því áhuga að fá að fljúga hingað til lands og vill fá afslátt á lendingar- og þjónustugjöldum á Keflavíkurflugvelli miðað við verðskrá. Þetta staðfesti Friðþór Eydal, upplýsingafulltrúi Keflavíkurflugvallar, í samtali við Viðskiptablaðið í gær.

Ryanair hefur nýlega aukið flugþjónustu sína umtalsvert í Norður-Evrópu og kynnt fyrr í vikunni áætlanir um flug frá Noregi á 16 staði víðsvegar um Evrópu. Flugfélagið hefur víðast hvar þann háttinn á að fljúga á flugvelli sem geta komið til móts við það um lítil sem engin lendingar- og þjónustugjöld. Friðþór segir að hugmyndir Ryanair hafi ekki leitt til formlegra viðræðna við flugfélagið. "Ryanair hefur borið upp hugmyndir um flug til Keflavíkurflugvallar með verulegum afslætti á lendingar- og þjónustugjöldum en þær hafa ekki leitt til viðræðna um málið. Keflavíkurflugvöllur kýs að tjá sig ekki um einstök atriði þeirra hugmynda sem flugfélagið hefur viðrað og vísar því til flugfélagsins," sagði Friðþór.

Lendingar- og þjónustugjöld á Keflavíkurflugvelli hafa til þessa ekki verið lækkuð að ósk ákveðinna flugfélaga, að sögn Friðþórs. Lendingargjaldið miðast við það sem kallað er hámarksflugtaksmassi. Hver byrjuð 1.000 kg reiknast sem 1.000 kg. Fyrir hverja lendingu í millilandaflugi greiðist gjald samsvarandi 8,15 dollurum fyrir hver byrjuð 1.000 kg af hámarks flugtaksmassa.

Flugverndargjald greiðist fyrir hvern farþega með loftfari frá Íslandi til annarra landa. Gjaldið er 620 krónur fyrir fullorðna og 285 krónur fyrir 2-12 ára börn. Ryanair er eitt umsvifamesta lággjaldaflugfélag heims og hefur um margt gjörbreytt landslagi í rekstri flugfélaga í Evrópu, að mati margra. Lágt verð og lágmarksþjónusta hefur leitt til tíðari ódýrari flugferða á mörgum svæðum Evrópu en áður þekktust. Flugfélög víðast hvar hafa þó gengið í gegnum mikla rekstrarerfiðleika undanfarin ár og óvissan í iðnaðinum er mikil í ljósi efnahagslegra þrenginga.

Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segist fagna hverju því sem leitt geti til þess að ferðamönnum í landinu fjölgi. "Ef Ryanair hefur flug hingað þá er það auðvitað mjög gott mál fyrir ferðaþjónustuna, eða ætti a.m.k. að vera það."