Lággjaldaflugfélagið Ryanair hefur kallað eftir hertari reglum vegna áfengisneyslu og sölu áfengis á flugvöllum. Þetta kemur fram á vef BBC .

Flugfélagið lagði þetta til eftir að það þurfti að lenda vél félagsins í París vegna drykkjuláta þriggja farþega, en vélin var á leið frá Dublin til Ibiza.

Lagt er til af forráðamönnum Ryanair að hver farþegi geti aðeins fengið sér tvo áfenga drykki á mann á flugvellinum, auk þess sem að áfengissala yrði bönnuð á flugvöllum fyrir kl. 10 á morgnana.

Að mati félagsins er það ósanngjarnt að flugvellir geti grætt á ótakmarkaðri sölu á áfengi og látið flugfélögin sitja eftir í súpunni þegar kemur að því að halda uppi öryggi um borð.