Heildarverðmæti þeirra ávísana, veðskuldabréfa og tryggingavíxla sem fundust í skjalaskáp fjármálastjóra Kópavogsbæjar í febrúar í fyrra hljóðaði upp á 289,7 milljónir króna. Þar af hljóða veðskuldabréf af lóðum sem búið er að skila aftur til bæjarins en láðist að aflýsa upp á 46 milljónir króna.

Þetta kemur fram í skýrslu sem endurskoðendafyrirtækið Deloitte vann fyrir bæjarráð Kópavogsbæjar og skilaði af sér í mars á síðasta ári.

Í skýrslu Deloitte er fjallað ítarlega um hvert eitt og einasta mál í 24 liðum.

Í skýrslunni kemur að Deloitte hafi rekið viðskipti þeirra viðskiptamanna sem skjölin tengdust, svo sem því hvort viðkomandi sé í skilum við bæinn. Fréttatíminn greindi upphaflega frá málinu í fyrrasumar. Fréttablaðið hefur fjallað um skjalaskápinn í vikunni og sérkjara sem Guðrún Pálsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri, naut vegna lóðakaupa af bænum í fjármálastjóratíð sinni.

Elstu bréfin frá 1992 - hæsta skuldin upp á 135 milljónir

Fram kemur í skýrslu Deloitte sem Viðskiptablaðið er með að elstu veðskuldabréfin sem fundust í skjalaskápnum voru frá árinu 1992 og 1994. Fram kemur að þeir sem gáfu út þessi bréf höfðu gert upp við bæinn en höfðu ekki fengið bréfin afhent aftur.

Þrjú veðskuldabréf vekja sérstaka athygli. Þau eru öll dagsett 29. desember árið 2006 upp á samtals 135 milljónir króna vegna lóða í bænum og eru þau öll í vanskilum. Fram kemur í skýrslunni að málið hafi legið í nokkurn tíma hjá bænum án viðeigandi lausnar en flækt hafi niðurstöðuna að málið hafi verið inni á borðum hjá fleiri en einu sviði bæjarins. Hugmyndir hafi þó verið uppi um að taka lóðirnar til baka vegna vanskila. Í skýrslu Deloitte segir að taka verði ákvörðun um það með hvaða hætti eigi að afgreiða málið í heild sinni og ákveða í framhaldi af því viðeigendi meðferð eða vistun skuldabréfanna.

Að þessari upphæð undanskilinni virðist í fljótu bragði sem bærinn hafi ekki fengið greiddar 2,8 milljónir króna auk þess sem fjármálastjóri hafi ekki getað fundið uppgjör eða greiðslur upp á tæpar 5,3 milljónir króna af tveimur tryggingavíxlum. Víxlarnir voru báðir gefnir út árið 1994. Í skýrslu Deloitte segir að mjög erfitt sé að rekja viðskipti svo langt aftur í tímann en samkvæmt bókhaldi bæjarins séu viðkomandi viðskiptamenn ekki í skuld við bæinn í dag. Niðurstaða Deloitte sé því að bókhaldið sé rétt og beri að ógilda tryggingavíxlana og afhenda þá eigendum þeirra.

Sjö milljónir óinnheimtar

Fram kom í viðtali Fréttatímans við Guðrúnu Pálsdóttur, þá bæjarstjóra Kópavogsbæjar, í Fréttatímanum í lok júlí í fyrra að verðmæti óinnheimtra krafna nemi sjö milljónum króna frá þeim tíma sem hún var fjármálastjóri og fram á haustið 2008. Hún bætti því við í samtali við blaðið, að ljóst sé að verkferlar í innheimtumálum bæjarins væru ekki í samræmi við það gæðakerfi sem innleit hafi verið hjá Kópavogsbæ.