Julie Kozack, sem hefur gegnt starfi yfirmanns sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi, átti símafund í síðustu viku með blaðamönnum og sérfræðingum um stöðu efnahagsmála á Íslandi, í kjölfar nýrrar skýrslu AGS um Ísland. Kozack talaði skýrt fyrir því að nauðsynlegt sé að fara sér hægt við afnám gjaldeyrishafta, það megi ekki ógna stöðugleika. Eitthvert svigrúm sé til gengisfellingar, en þó ekki mikið. Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er birt í heild þýðing af athyglisverðum símafundi með Kozack sem haldinn var í síðustu viku.

„Það sem við vildum sjá er að hraðinn [á afnámi haftanna] verði þannig að hann grafi ekki undan þeim árangri, sem náðst hefur til þessa. Það mun krefjast þess að greiðslujöfnuðurinn verði nægilega styrkur, að [gjaldeyris] varaforðinn verði áfram nægilegur, svo ef við lítum á viðtekin viðmið um nægilegan varaforða til þess að mæta skammtímaskuldbindingum, þá myndum við ekki vilja að það gengi mjög á varaforðann.

Á sama tíma þurfum við einnig að gefa fjármálageiranum gætur, vegna þess að mikið af hinum erlendu eignum eru innstæður eða eru varðveittar sem innstæður í bankakerfinu, svo við viljum auðvitað ganga úr skugga um að fjármálakerfið þoli að innstæðurnar séu teknar út. Ætlunin er að hraðinn sé miðaður við að halda stöðugu ástandi. Og það á einnig við um gjaldmiðilinn. Það er rými til nokkurrar gengisfellingar, en ekki mikillar vegna þess gjaldmiðlamisvægis sem enn ríkir á Íslandi, þannig að við viljum að aðstæður haldist almennt stöðugar eftir því sem frelsisvæðingunni vindur,“ sagði Kozack.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.