Miðað við kosningaloforð stjórnmálaflokkanna má áætla að stóraukin ríkisútgjöld séu í kortunum. Brynjar Örn Ólafsson hagfræð­ingur segir að óháð því hvaða ríkisstjórn taki við sé rýmið til aukinnar skuldsetningar ríkissjóðs til að fjármagna aukin ríkisútgjöld takmarkað.

„Ég átti von á einhverjum viðbrögðum við kosningunum á mánudaginn, sérstaklega þar sem tækifæri eru á að gera skiptasamninga á verðbólguvæntingar sem eru óbreyttar í 2,8% á lengri endanum síðan á föstudaginn. Verð- og magnáhrif eru að valda togstreitu núna hjá mörgum, sem sjá til dæmis fyrir sér frestun gildistöku lækkun virðisaukaskatts í 22,5% við upphaf árs 2019 til að fjármagna ríflega 12 milljarða króna aukningu gjalda,“ segir Brynjar Örn.

„Svo er allskostar óvíst með útgáfu ríkisbréfa. Reyndar eru flestir sammála því að hver sem næsta ríkisstjórn verður er rýmið til að auka framboð á ríkisbréfum lítið umfram 120 milljarða endurkaup á RIKH18. Þá er ég að gefa mér að sú ríkisstjórn ætli sé að fara eftir lögum um opinber fjármál um að hrein skuldastaða skuli ekki vera yfir 30% af landsframleiðslu. Verst finnst mér óvissan um bankana þar sem þeir fá mögulega á sig aukaáhættuálag í útboðum á meðan ekki er vitað hvað yfirvöld ætla sér með eigið féð eða rekstrarform þeirra.“

Þá segir Brynjar Örn að verðlagning hlutabréfamarkaðarins hafi innbyrt álag í gegnum ávöxtunarkröfu á greiðsluflæði frá stjórnarslitum.

„Hlutabréfamarkaðurinn tók sína syrpu 15. september eftir stjórnarslitin. Verðlagningin hefur síðan þá innbyrt álag í gegnum ávöxtunarkröfu á greiðsluflæði. Fimm af þeim félögum sem eru í OMXI8 vísitölunni hafa birt níu mánaða uppgjör sín. VH-hlutfall vísitölunnar mun hækka lítillega milli mánaða sem rekja má til  Icelandair en það verður áfram nálægt 14. Þar sem hlutfallið er á svipuðum stað og 2012 myndu margir vera ósammála því að það færi mikið neðar í ljósi þess að spár gera ráð fyrir áframhaldandi hagvexti.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .