Samkomutakmarkanir munu uppfærast 10. september næstkomandi. Þá munu allar þær íþróttir sem heyra undir Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) vera leyfðar. Snertingar á æfingum í sviðslist og tónlist verða leyfðar á sama hátt og í íþróttum. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.

Reglurnar gilda frá 10. september til 29. september næstkomandi og eru í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis. Ákvæði um almenna nálægðartakmörkun verður breytt lítillega. Í staðinn fyrir að rekstraraðilar skuli tryggja að möguleiki sé að tryggja tveggja metra milli einstaklinga sem ekki deila heimili, gildir það fyrir þá sem ekki eru í nánum tengslum.

Takmarkanir verða þær sömu á líkamsræktarstöðvum og á sund- og baðstöðvum landsins. Hægt er að sjá minnisblað sóttvarnarlæknis í heild sinni á vef Stjórnarráðsins.