Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið breytingar á sóttvarnarráðstöfunum sem taka gildi 10. desember næstkomandi. Fjöldatakmarkanir miðast áfram við tíu manns en með ákveðnum undantekningum. Allar verslanir mega taka á móti 5 manns á hverja tíu fermetra en að hámarki 100 manns. Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins.

Enn fremur mega sundlaugar og baðstaðir opna fyrir allt að 50% af hámarksfjölda gesta, samkvæmt starfsleyfi. Breytingarnar gilda til 12. janúar 2021 en reglugerð um takmarkanir á skólahaldi verða að mestu óbreytt. Gert er ráð fyrir að kynna fljótlega nýjar reglur um skólastarf sem taka á gildi 1. janúar 2021.

Veitingastaðir mega taka við fimmtán viðskiptavinum og hafa opið til 22.00 en ekki má taka á móti nýjum viðskiptavinum eftir klukkan 21.00. Sagt er frá því að breytingarnar séu að mestu í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis í meðfylgjandi minnisblöðum.

„Því er ljóst að sæmileg tök hafa náðst á faraldrinum á þessari stundu en jafnframt má segja að staðan á þessum tímapunkti er viðkvæm þar sem að brugðið getur til beggja vona“ segir í minnisblaði sóttvarnalæknis.

Ákvæði um fjöldatakmörkun, nálægðartakmörkun og grímuskyldu taka ekki til barna sem fædd eru 2005 og síðar.

„Íþróttaæfingar einstaklinga sem fæddir eru 2004 og fyrr eru heimilar með og án snertingar í íþróttum innan ÍSÍ í efstu deild. Æfingar afreksfólks í einstaklingsbundnum íþróttum eru heimilar. Æfingar sem krefjast snertingar innan bardagaíþrótta eru þó ekki heimilar,“ segir í tilkynningu.