Útbreiðsla kórónuveirunnar og viðbrögð við henni hafa litað markaði síðustu vikur en samhliða því að hagkerfi heimsins hafa nær lamast hefur hlutabréfaverð lækkað töluvert og hefur í raun ekki lækkað jafn hratt svo árum skipti. Íslenskur hlutabréfamarkaður hefur ekki farið varhluta af þróuninni en frá 21. febrúar til 23. mars lækkaði úrvalsvísitalan um 27% sem er mesti lækkunarleggur frá hruni. Þess ber þó að geta að þegar lækkun hófst stóð úrvalsvísitalan nánast í sínu hæsta gildi. Síðustu daga hefur lækkunin að einhverju leyti gengið til baka en samt sem áður ríkir mikil óvissa um hve mikil áhrif kórónuveiran mun hafa á fyrirtækin tutttugu í Kauphöllinni bæði til skamms og langs tíma. Þá er einnig óvíst er hve mikið aðgerðir stjórnvalda og vaxtalækkanir munu vega upp á móti væntu tekjutapi. Til marks um óvissuna hafa sex félög tekið afkomuspá fyrir árið í ár úr gildi auk þess sem nær öll félögin hafi gefið það út að veiran muni hafa áhrif á rekstur og starfsemi  þeirra á næstu misserum.

Nær ógerningur er að segja til um hve mikil áhrifin verða á hvert félag og í einhverjum tilfellum vita stjórnendur þeirra það í raun og veru ekki sjálfir enda hefur staðan breyst hratt dag frá degi. Óneitanlega munu áhrifin verða ólík og mismikil milli fyrirtækja, sum þeirra eða stórar rekstrareiningar innan þeirra munu að einhverju leyti finna fyrir aukinni eftirspurn á meðan ástandið kemur verulega illa við sum þeirra. Þá mun tímalengd veirunnar hafa töluvert að segja þar sem í einhverjum tilfella geta fyrirtækin til skamms tíma fært sína framleiðslu til á meðan önnur verða fyrir varanlegum skaða.

Þá er staðan einnig ólík hvað varðar útflutningsfyrirtækin þar sem þróunin og tímalengd aðgerða erlendis mun hafa mikið að segja. Hér á eftir verður reynt að fara yfir þá þætti sem veiran er að hafa áhrif á hjá hverju fyrirtæki í og geira fyrir sig í Kauphöllinni þó ekki sé um tæmandi umfjöllun að ræða. Gera má ráð er að væntur samdráttur í hagkerfinu og aukið atvinnuleysi muni hafa áhrif á öll félögin en þó mismikil á sama tíma og aðgerðir stjórnvalda og lægri vextir munu á móti hjálpa til.

Í ökkla eða eyra

Smásölu- og olíufyrirtækin Festi og Hagar eru að sumu leyti ónæmari fyrir áhrifum COVID-19 en mörg önnur félög á markaði. Kemur það til af því að gengi smásöluhluta þeirra hefur að öllum líkindum verið betra en venjulega á þessum tíma árs enda hefur landinn keppst við að birgja sig upp af matvælum auk þess að gera eitthvað betur við sig meðan ástandið stendur yfir.

Aftur á móti mun ástandið sem nú ríkir hafa töluverð áhrif á eldsneytissölu. Fyrir það fyrsta gerir samkomubann það að verkum að töluverður fjöldi fólks stundar skóla og vinnur heima hjá sér í stað þess að ferðast á staðina. Auk þess gerir fall í fjölda ferðamanna það að verkum að eldsneytissala mun dragast verulega saman bæði vegna þess að mun færri bílaleigubílar eru á ferð en einnig vegna þess að ferðaþjónustufyrirtæki eru að keyra mun minna. Gera má ráð fyrir að mikill samdráttur í ferðaþjónustu hafi og muni hafa meiri áhrif á rekstur N1, sem er hluti af Festi, heldur en á Olís, sem er í eigu Haga, vegna sterkrar stöðu N1 á landsbyggðinni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér