Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag kröfu Allrahanda GL ehf. um staðfestingu á nauðasamningi félagsins. Ástæðan er sú að dómurinn taldi að færsla eigna yfir í systurfélag myndi rýra eignir félagsins og þar með möguleika kröfuhafa á að fá greitt upp í kröfur sínar.

Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um aðdraganda að og frumvarp að nauðasamningi félagsins. Samkvæmt samningnum átti ekki að fara fram á eftirgjöf skulda heldur lengja í lánum félagsins, engir gjalddagar verði í þrjú ár og dráttarvöxtum breytt í samningsvexti. Skuldir félagsins námu rúmlega milljarði eftir greiðsluskjól.

Hluti kröfuhafa, alls ellefu talsins, töldu frumvarpið óraunhæft. Rétt er að geta þess að í byrjun ár hafnaði Landsréttur kröfu N1 um að Allrahanda fengi ekki áframhaldandi greiðsluskjól en N1 taldi að Allrahanda hefði aldrei uppfyllt skilyrði þess. Rekstrarvandi félagsins hefði legið fyrir löngu áður en faraldurinn skall á og rétt hefði verið að taka félagið þá þegar til skipta. Því var hafnað sem fyrr segir.

Fyrr á þessu ári var framkvæmd nafnabreyting á Grænni orku ehf., sem er í eigu hluthafa Allrahanda, og heitir það nú GL Iceland ehf. Fyrirhugað var af hálfu stjórnenda Allrahanda að aðskilja ferðaskrifstofurekstur annars vegar og rútu- og fasteignarekstur hins vegar. Hið nýja félag myndi selja ferðirnar en kaupa þjónustu af hinu gamla. Kröfuhafar kölluðu þetta aftur á móti, þá á tandurhreinni íslensku, kennitöluflakk.

Ríkið og lífeyrissjóðir hluthafar í Allrahanda

Í úrskurði héraðsdóms, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, segir að fyrir liggi að stjórn Allrahanda hafi með samningi við systurfélag sitt fært „kjarnahluta félagsins yfir í annað félag, GL Iceland ehf., ásamt allri sölu- og markaðsstarfsemi“ sem var áður í upphaflega félaginu.

„Hvað sem líður núverandi eignarhaldi GL Iceland ehf. er ljóst að dýrmæt verðmæti í formi vörumerkis, viðskiptavildar og aðgangs að vörumerki sem stutt er sölu og markaðskerfi hafa verið flutt frá sóknaraðila til nýrrar lögpersónu. Ekki verður fallist á að umbúnaður samninga sóknaraðila og GL Iceland sé þannig að tryggt verði talið að síðarnefndi aðilinn geti ekki einhliða breytt efni yfirlýsinga sinna eða hætt viðskiptum við [Allrahanda],“ segir í úrskurðinum.

Að mati dómsins fór umrædd ráðstöfun, að færa mikilvægustu tekjugefandi rekstrarþætti sína í nýtt félag, í bága við ákvæði og meginreglur gjaldþrotaskiptalaga. „Þannig hafi [Allrahanda] rýrt fjárhagsstöðu sína af ásetningi eða stórfelldu gáleysi lánardrottnum til tjóns […]. Þegar af þessari ástæðu telur dómurinn óhjákvæmilegt að hafna kröfu um [staðfestingu nauðasamnings,“ segir í úrskurðinum.

Þórir Garðarsson, framkvæmdastjóri Allrahanda GL, hefur lýst því yfir á Vísi að félagið hyggist kæra niðurstöðuna til Landsréttar.

Rétt er að geta þess að félögin tvö, Allrahanda og GL Iceland, eru í eigu Þóris Garðarssonar og Sigurdórs Sigurðssonar, sem hvor um sig eiga 25,5%, en afgangurinn er í eigu Akurs fjárfestingar slhf. Það félag er í stýringu hjá Íslandssjóðum og meðal annars í eigu Íslandsbanka, ýmissa lífeyrissjóða og VÍS.