Þegar Spron var tekið yfir af Fjármálaeftirlitinu voru öll innlán viðskiptavina Netbankans, dótturfélags Spron, færð til Nýja Kaupþings en nú er unnið að sölu á starfsemi bankans. Margir hafa undrast þess ákvörðun þar sem mun hærra verð hefði að öllum líkindum fengist fyrir Netbankann ef viðskiptavinir hefðu flust með en þeir skipta þúsundum.

Eins og komið hefur fram hafa margir fjárfestar áhuga á að kaupa þá starfsemi sem er enn eftir undir merkjum Netbankans en þar er fyrst og fremst um að ræða kerfi hans. Meðal þeirra sem hafa áhuga á kerfunum eru MP Banki, VBS Fjárfestingabanki og Saga Capital.

Þegar Hlynur Jónsson hdl. var spurður um þetta sagði hann að hér hefði verið um að ræða ákvörðun FME en ekki skilanefndarinnar.

Á vef netbankans kemur fram að Fjármálaeftirlitið hefur ákveðið að taka yfir vald hluthafafundar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. (SPRON) og víkja stjórninni frá þegar í stað.

Fjármálaeftirlitið hefur skipað skilanefnd sem skal fara með öll málefni SPRON, þar á meðal að hafa umsjón með allri meðferð eigna SPRON. Þá hefur FME tekið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda SPRON. Nýi Kaupþing banki hf. mun yfirtaka skuldbindingar bankans samkvæmt nánari lýsingu.