Álykta má út frá þjóðhagsspám Seðlabankans að vinnumarkaður muni glæðast á næstunni en þrátt fyrir það jókst atvinnuleysi í janúar og horfur eru á frekari aukningu í febrúar. Skeikaði Seðlabankanum í spá sinni eða er um árstíðasveiflu að ræða?

„Vinnumarkaðskönnun fyrir fjórða ársfjórðung síðasta árs gefur til kynna að þróun á vinnumarkaði sé í samræmi við síðustu spá bankans. Útlit er fyrir að atvinna taki að aukast á ný á fyrri hluta þessa árs og að atvinnuleysi taki smám saman að minnka eftir því sem líður á árið.“

Þessi orð er að finna í samantekt nýjustu þjóðhagsspár Seðlabanka Íslands sem birtist í Peningamálum 1/2011 samhliða vaxtaákvörðun bankans 2. febrúar. Úr þessu má auðveldlega lesa að horfur á vinnumarkaði séu jákvæðar, sérstaklega þegar flett er upp á samantekt hagspárinnar í Peningamálum 4/2010 sem birtust í nóvember. Þar segir m.a.: „Þá er því spáð að atvinna taki að vaxa frá miðju næsta ári og atvinnuleysi minnki smám saman eftir því sem líður á spátímann.“

Ennfremur rennir yfirferð yfir yfirlit þjóðhagspár í nýjasta hefti Peningamála stoðum undir þessa túlkun en þar kemur fram að bankinn spáir 7,3% atvinnuleysi á þessu ári á móti 8,1% atvinnuleysi á liðnu ári. Veikur efnahagsbati er hafinn skv. spá bankans og rökrétt að minnkandi atvinnuleysi sé liður í því.

Rúmri viku eftir útgáfu Peningamála tilkynnti Vinnumálastofnun að atvinnuleysi í janúarmánuði hafi, skv. mælingum stofnunarinnar, mælst 8,5% og aukist um hálft prósentustig frá desembermánuði. Í janúar voru að meðaltali 13.458 manns á atvinnuleysisskrá sem er fjölgun um 713 manns frá desember og jafnframt 253 manns umfram meðaltal síðustu tólf mánaða. Þetta skýtur óneitanlega skökku við í ljósi þess að horfur á vinnumarkaði ættu að fara batnandi og því eðlilegt að velta fyrir sér hvort Seðlabankinn hafi eitthvað misreiknað sig, hvort þar á bæ séu menn úti að aka.

Árstíðasveifla

Í þessu samhengi ber að líta til þess að lítið er að marka þótt þróun eins mánaðar sé á skjön við spár. Hins vegar má áætla að atvinnuleysi muni aukast eitthvað á næstunni og þegar litið er til þess gæti vangaveltum um spáskekkju vaxið fiskur um hrygg. Þegar litið er til þróunar liðinna ára á vinnumarkaði má þó álykta að alls ekki sé um spáskekkju að ræða. Þvert á móti bendir þróun undanfarinna tveggja ára til þess að aukning atvinnuleysis í janúar sé hluti af eðlilegri árstíðasveiflu.

Vinnumarkaður og atvinnnuleyfis frá 2009
Vinnumarkaður og atvinnnuleyfis frá 2009
© None (None)

Stækka má myndina með því að smella á hana.

Eins og sjá má af meðfylgjandi stöplariti hefur þróun á vinnumarkaði verið þannig undanfarin tvö ár að atvinnuleysi eykst jafnan á fyrstu mánuðum hvers árs og nær hámarki í mars eða apríl. Þegar sumarið gengur í garð dregst atvinnuleysi svo saman, eins og við er að búast vegna sumarráðninga, og nær lágmarki í september. Þá fer það að aukast á nýjan leik og eykst jafnt og þétt allan veturinn. Eins og áður segir má því búast við að atvinnuleysi muni hækka eitthvað á milli mánaða enda spáir Vinnumálastofnun því í skýrslu sinni um stöðu á vinnumarkaði í janúar að í febrúar muni atvinnuleysi mælast á bilinu 8,6-8,9%.

Árstíðasveifla getur verið blekkjandi og því er réttara að horfa til tólf mánaða sveiflu. Sé atvinnuleysi í janúar nú borið saman við janúar 2010 bendir margt til þess að vinnumarkaður sé að glæðast. Fyrir ári síðan voru atvinnulausir að meðaltali 14.705, eða 9% af mannafla á vinnumarkaði en eins og áður segir voru þeir 13.458 í janúar sl., 8,5%. Þá hefur lausum störfum fjölgað á milli ára, voru 185 á landinu öllu nú en 117 í janúar í fyrra. Rétt er að hafa í huga að þátttakendum á vinnumarkaði hefur fækkað um 4.500 á milli ára skv. áætlun Vinnumálastofnunar, þróun sem alla jafna ætti að hjálpa til við að draga úr atvinnuleysi á milli ára og gæti því að einhverju leyti skekkt þá mynd sem dregin er hér upp.

Af ofansögðu er þó engin ástæða til þess að ætla annað en að mat hagfræðinga Seðlabankans sé rétt og að horfur á vinnumarkaði fari batnandi. Sérstaklega þegar litið er til þess að í þjóðhagsspá bankans í nóvember í fyrra segir: „Í þeirri spá sem hér er birt er gert ráð fyrir að það nái hámarki í upphafi næsta árs en minnki smám saman eftir því sem efnahagsumsvif aukast á ný. Á sama tíma tekur atvinna að aukast á ný.“

Fréttaskýringin birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út sl. fimmtudag.