Áætlaður kostnaður verslunar á Íslandi af þjófnaði er um 5 til 6 milljarðar króna á ári hverju og hefur hann aukist mjög mikið undanfarin ár. SVÞ samtök verslunar og þjónustu standa fyrir morgunverðarfundi á Grand hóteli á morgun um þessi mál og segja að  rýrnunin sé að sliga verslunina.

Við þetta bætist kostnaður verslunarinnar upp á um 1,5 milljarð króna fyrir þjónustu öryggisfyrirtækja, rekstur öryggisdeilda, öryggisvarða og kaup á öryggisbúnaði. SVÞ telur ástæður vandans að finna í opnari landamærum og versnandi hag heimilanna.

Samkvæmt upplýsingum frá Ríkislögreglustjóra er skipulögð glæpastarfsemi að festa sig í sessi hér á landi og einn angi slíkrar starfsemi er stórfelldur þjófnaður úr verslunum. Tap verslunar getur numið hundruðum þúsunda á örfáum mínútum og því miður er vandinn gríðarlegur. Í samræmi við versnandi hag heimilanna hefur einnig stóraukist þjófnaður á matvöru og gríðarleg verðmæti tapast þar.

Fundurinn á morgun hefst með ávarpi Stefáns Eiríkssonar lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins og erindi halda Eyþór Víðisson öryggisfræðingur hjá VSI – öryggishönnun og ráðgjöf, Guðrún Björk Bjarnadóttir lögmaður SA og Jackie Lambert framkvæmdastjóri RLP (Retail Loss Prevention) í Bretlandi.