Eftir að Seðlabankinn seldi FIH bankann í fyrrahaust var seljendalán sem hann veitti nýjum eigendum danska bankans sett inn í ESÍ. Þá var virði þess sagt vera tæplega 70 milljarðar króna á núvirði. Höfuðstóll seljendalánsins er hins vegar bundinn við að gengi skartgripaframleiðandans Pandoru haldist hátt, að FIH haldi áfram rekstri og afskrifi sem minnst af eignum og að nýir eigendur FIH hagnist á fjárfestingu sinni. Bréf í Pandoru hafa fallið um meira en 90% frá því í janúar, lánshæfi FIH er í ruslflokki og bankinn á enn eftir að afskrifa mikið af ónýtum lánum að mati lánshæfisfyrirtækja sem eru með hann á athugunarlista. Því er ólíklegt eins og stendur að kaupin á FIH muni skila nýjum eigendum miklum arði.