Ljóst er að þrýst verður mjög á Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra að bjóða sig fram til formennsku í Samfylkingunni nú þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur ákveðið að stíga til hliðar.

Vilji er til þess í innsta hring flokksins að Jóhanna verði formaður í að minnsta kosti tvö ár frá næsta landsfundi. Það þykir eðlilegt m.a. í ljósi þess að hún verður forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar í kosningunum.

Jóhanna hefur sagt við fjölmiðla í dag að hún sé ekki á leið í formannsstólinn. Samfylkingarmenn sem Viðskiptablaðið hefur rætt við segja að það stoppi ekki stuðningsmenn hennar í að hvetja hana til að taka við formannsstólnum.

Hún verði hreinlega pínd til að taka við forystunni, eins og einn orðaði það, ef hún þrjóskast við. Hún njóti víðtæks stuðnings í þetta verkefni.