Fjármálaráðherra Þýskalands, Peer Steinbrück, hefur sett aukinn pólitískan þrýsting á stjórnvöld í sambandsríkjum landsins um að hraða samrunaþróun á Landesbanken, sem eru sparisjóðsbankar í eigu hins opinbera, og varar stjórnmálamenn við að fresta því sem er "óumflýjanlegt". Yfirvöld í Berlín hafa löngum lagt mun meiri áherslu á að ráðist verði í slíkar umbætur á bankakerfinu heldur en stjórnmálamenn í sambandsríkjum Þýskalands.

Þýskur bankamarkaður hefur orðið fyrir einna mestum skaða í Evrópu af vaxandi lausafjárþurrð á fjármagnsmörkuðum sökum undirmálslánakrísunnar á bandaríska fasteignamarkaðinum. Tveir bankar hafa verið lýstir gjaldþrota og auk þess hafa þýsk stjórnvöld neyðst til að leysa tvær fjármálastofnanir úr fjárhagsvandræðum með sérstakri neyðaraðstoð. Að sögn fjármálaskýrenda endurspegla þessi vandræði þýskra fjármálafyrirækja nauðsyn þess að gerðar verði umbætur á starfsemi þeirra.