Í Vegvísi Landsbankans segir að olíuverð hafi að jafnaði lækkað á síðasta ársfjórðungi þegar eftirspurn minnkar eftir sumarmánuðina. Til viðbótar árstíðarsveiflunni greina sérfræðingar nú mesta þrýsting til verðlækkana sem komið hefur fram frá 2004. Sumir spá því að olíuverðið endi niður undir 70$ á tunnu í árslok.

Minni eftirspurn
Citigroup, Deutsche Bank og HSBC búast við lækkun olíuverðs vegna samdráttar í eldsneytissölu og minnkandi eftirspurnar í Bandaríkjunum vegna kólnunar í hagkerfinu. Olíuhreinsunarstöðvar í Bandaríkjunum starfa á 87,5% af afkastagetu, þeirri minnstu frá 2005 þegar fellibyljirnir Katrína og Rita ollu miklu tjóni. Umfangsmikil viðhaldsverkefni eru framundan hjá hreinsistöðvunum sem mun draga enn úr eftirspurn þeirra eftir hráolíu og lækka hagnað.

Meira framboð
Hráolíuframleiðsla í Bandaríkjunum jókst um rúmlega milljón tunnur síðustu vikuna í september og olíubirgðir voru nær 10% meiri en þær hafa verið að jafnaði á þessum árstíma sl. fimm ár. OPEC ríkin samþykktu í síðasta mánuði að auka framleiðslu sína um 500 þúsund tunnur á dag frá og með 1. nóvember.

Minni hagnaður
Ágóði af því að breyta hverri tunnu af hráolíu í eldsneyti er orðinn svo lítill að það setur verulega pressu á hráolíuverðið að mati sérfræðinga sem benda á að engin aukning sé fyrirsjáanleg í eftirspurn. Samkvæmt vikulegri könnun Bloomberg fréttaveitunnar meðal sérfræðinga og miðlara á olíumarkaði hafa þeir aldrei verið jafn svartsýnir á verðþróun. 75% þeirra búast við lækkun.