Samfylkingin með Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra og formann Samfylkingarinnar, í broddi fylkingar hótaði einstökum þingmönnum Vinstri grænna stjórnarslitum greiddu þeir ekki atkvæði með tillögu ríkisstjórnarinnar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Jóhanna kom því sömuleiðis rækilega á framfæri við Vinstri græna að Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra væri ekki æskilegur á ráðherrabekknum eftir að ljóst var að hann myndi ekki greiða atkvæði með ESB-tillögunni. Hann gerði fyrirvara við málið í ríkisstjórn.

Þrýstingur Samfylkingarmanna á þingmenn VG jókst mjög sólarhringinn fyrir lokaatkvæðagreiðsluna á þingi en þá höfðu þrír þingmenn Borgarahreyfingarinnar greint frá því að þeir hygðust ekki standa við gefið loforð um stuðning við málið.

Guðfríður Lilja dregin afsíðis

Atkvæðagreiðslur um ESB-tillöguna og breytingartillögur við hana fóru fram á hádegi, fimmtudaginn 16. júlí. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að þá hafi þrýstingur frá Samfylkingarfólki, einkum Jóhönnu, Össuri Skarphéðinssyni og Helga Hjörvar náð hámarki. Þingmenn VG voru dregnir afsíðis og þeim send sms-skilaboð. Þar var því komið á framfæri að stjórnarsamstarfið væri undir.

Það fór til dæmis ekki framhjá mörgum að Jóhanna stóð upp í miðjum atkvæðagreiðslum og hnippti í Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, þingflokksformann VG, og gengu þær úr þingsalnum og inn í hliðarherbergi Alþingis. Duldist engum sem fylgdist með að þar væri verið að árétta hótanirnar og þrýsta á þingmanninn að segja já.

Niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar þekkja allir: ESB-tillagan var samþykkt með 33 atkvæðum þingmanna Samfylkingarinnar og einstakra þingmanna annarra flokka gegn 28 atkvæðum. Tveir sátu hjá.

Átta þingmenn VG sögðu já. Allir þeir fimm sem höfðu gert fyrirvara við ESB-ákvæðið í stjórnarsáttmálanum, þar með Jón Bjarnason, sögðu nei. Guðfríður Lilja sat hjá.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu.