Myndbönd sem sýna fyrrverandi starfsmenn og samstarfsmenn Baugs hafa vakið mikla athygli í netheimum síðustu daga eftir að Tístarinn Ekki Landsbankinn, sem enn fer huldu höfði, vakti athygli á þeim á tweet síðu sinni. Öll myndböndin voru á sínum tíma unnin í samstarfi við leikarateymi hins vinsæla breska gamanþáttar Little Britain.

Um er að ræða þrjú myndbönd. Í fyrsta myndbandinu sést Skarphéðinn Berg Steinarsson, nú forstjóri Iceland Express, spila Foosball við sjálfan sig, dansa um af fögnuði og lýsa því svo af hverju hann lét af störfum sem starfsmaður ríkisins til að vinna fyrir Baug. Skarphéðinn Berg var sem kunnugt er starfsmaður einkavæðingarnefndar og um tíma settur skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu. Hann hóf síðar störf fyrir Baug og stýrði eignarumsýslufélaginu Landic Properties. Í myndabandinu lýsir hann því hvernig ríkið starfi á hraða skjaldbökunnar og hann hafi vilja taka þátt í því ævintýri sem framundan var hjá Baugi.

Í öðru myndbandinu ræða leikarar Little Britain við Hannes Smárason, fyrrv. forstjóra FL Group, um fjárfestingastefnu félagsins með kómískum hætti. Aðspurður um fjárfestingastefnuna segir Hannes að félagið hafi ákveðið að fjárfesta í fyrirtækjum sem þeim, þá væntanlega forsvarsmönnum FL Group, líkar vel við. Það sé m.a. gaman að fljúga með flugfélögum og gaman að eiga banka til að taka lán hjá þeim. „That‘s how we do things,“ segir Hannes m.a. í myndbandinu áður en hann lýsir því hvernig fyrirtækið mun auka fjárfestingar sínar.

Í þriðja myndbandinu er Stefán Hilmar Hilmarsson, fyrrv. fjármálastjóri Baugs og nú fjármálastjóri 365 miðla,  „dáleiddur“ til að hætta störfum fyrir endurskoðunarskrifstofuna KPMG og koma til starfa hjá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, fyrrv. forstjóra og aðaleiganda Baugs. Myndbandið er stutt og í lokin spyr Stefán Hilmar þeirrar einföldu spurningar, „hvar skrifa ég undir?“

Það var Saga Film sem sá um framleiðslu myndbandanna. Myndband af veisluhöldum og öðru úr boðsferð Baugs til Mónakó árið 2007 vakti á sínum tíma mikla athygli í netheimum en ofangreind myndbrot voru framleidd á sama tíma. Myndbandið var þó, af kröfu Saga Film, fjarlægt af Youtube vegna höfundaréttar en er þó aðgengilegt í dag án myndbrotanna með leikurum Little Britain.

Myndböndin þrjú má nálgast HÉR

Myndbandið úr Baugspartýinu í Mónakó árið 2007 má sjá hér að neðan.